NÆTURSIGLING Costa del Sol, Spánn
Við fengum þær fréttir að Margrét systir Önnu yrði í Lignano, nálægt Feneyjum, í byrjun júní. Við ákváðum að reyna að komast þangað til að hitta hana. Aprílmánuður var senn á enda og því áttum við fyrir höndum að sigla nærri því 3000 km á rúmum mánuði!
Það var því ekki seinna vænna að setja stefnuna í austur. Leiðin skiptist í nokkra áfanga og nokkrum sinnum sigldum við stanslaust 3-4 sólarhringa. Lengsta samfellda siglingin var þó frá Spáni til Sardiníu (900 km) og tók hún 5 daga. Á þessum siglingum höfðum við vaktaskipti á 4 klst fresti og reyndum að aðlaga okkur því að þurfa að vaka og sofa á furðulegum tímum.
Nú brá svo við að við þurftum litlar áhyggjur að hafa af fiskibátum og voru því næturvaktirnar þægilegri en oft áður. Aftur á móti voru miklar flotaæfingar í gangi í kringum okkur og herþotur og þyrlur sveimuðu yfir. Þá voru ekki flugmóðurskipin ekki langt undan og kafbátar áttu það til að birtast út úr myrkrinu. Eins gott að hafa athyglina í lagi..
|